MPM Master of Project Management


Frábær vettvangsferð MPM nemaHefð er fyrir því að í lok 2. misseris er farið í vettvangsferð innanlands, til að fræðast um áhugaverð verkefni á landsbyggðinni.
Helgina 23. og 24. apríl var dvalið á norðausturlandi. Meðal viðkomustaða föstudaginn 23. apríl voru Akureyrarbær þar sem hópurinn fræddist m.a. um hið nýja og glæsilega menningarhús Akureyringa, Hof. Byggingarsaga þess er um margt áhugaverð frá sjónarhorni verkefnastjórnunar og niðurstaðan er glæsilegt og afar hagnýtt mannvirki. Í Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar fræddist hópurinn um margvísleg verkefni sem horfa einkum til atvinnusköpunar og nýsköpunar í ferðamannaiðnaði. Á Árskógssandi heimsótti hópurinn Bruggsmiðjuna og fræddist um hina stórmerkilegu sögu Bruggsmiðjunar. Hugmyndin að fyrirtækinu kviknaði 2005 og ári seinna hófst framleiðsla á Kalda sem er einn vinsælasti bjórinn á Íslandi.
Laugardaginn 24. apríl fræddist hópurinn um nýja flökunarvél sem hefur verið þróuð af fyrirtækinu Vélfag á Ólafsfirði og hefur tæknilega yfirburði yfir hina hefðbundnu Baader flökunarvél. Hópurinn fræddist um sameiningu Ólafsfjarðar og Siglufjarðar sem mynda Fjallabyggð. Sameiningin er spennandi verkefni sem ekki er lokið þó langt sé komið.
Lykilþáttur í sameiningunni eru Héðinsfjarðargöngin sem verða opnuð fyrir umferð á komandi hausti. Fulltrúar frá Vegagerðinni greindu frá þessu umfangsmikla verkefni þar sem ýmsar hindranir frá náttúrunnar hendi töfðu fyrir en nú sér loks fyrir endann á gangnagerðinni. Hópurinn fékk að aka í gegnum göngin til Héðinsfjarðar og áfram til Siglufjarðar.
Þar heimsótti hópurinn Rauðku sem er fyrirtæki sem stendur í stórframkvæmdum við endurbyggingu gamalla húsa og uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu. Hið margverðlaunaða Síldarminjasafn var loks heimsótt. Á heimleið var stuttlega komið við á Hofsósi og hið stórkostlega stæði nýrrar almenningssundlaugar skoðað. Það var haft á orði á heimleið að það væri svo sannarlega upplífgandi að komast í snertingu við hinn mikla þrótt og sköpunarkraft og bjartsýni gestgjafa hópsins í þessari ferð. MPM námið þakkar fjöldamörgum gestgjöfum sínum í þessari ferð fyrir aldeilis frábærar viðtökur.

Myndin sýnir hópinn við Hannes Boy Café en það er nýtt veitingahús á Siglufirði í einu af þeim húsum sem Rauðka hefur endurbyggt.