MPM Master of Project Management


Opin kynning á hópverkefnum í MPM námi 4. maíNemendur á fyrra ári í MPM námi við IVT deild Háskóla Íslands kynna afrakstur umfangsmikilla hópverkefna sem þeir hafa unnið að á vormisserinu. Kynningin verður haldin þriðjudaginn 4. maí á Hótel Loftleiðum og hefst kl. 16.00. Fundarstjóri verður Dr. Björn Þorsteinsson heimspekingur. Fyrirkomulag kynningarinnar er þannig að vinnuhópar hafa 20 mínútur til umráða til að kynna verkefni sín. Að því loknu er 5 - 10 mínútna spurninga- og umræðutími. Dagskrá annars er sem hér segir:

16:00   Setning fundar, Dr. Björn Þorsteinsson.

16:05 Viskubrunnur í Álfalundi, verkefnis-, kynningar- og fjárhagsáætlun. Viskubrunnur í Álfalundi er nýr ævintýragarður á Akranesi með áherslu á náttúru, menningu og mannlíf. Verkefnið er átaksverkefni í kjölfar kvótaniðurskurðar sem fengið hefur styrki frá Iðnaðarráðuneyti og Orkuveitu Reykjavíkur.  Garðurinn á annars vegar að  verða skemmti- og afþreyingargarður fyrir fjölskyldufólk, hópa og einstaklinga og hins vegar miðstöð útikennslu.  Vonast er til að verkefnið auki ferðamannastraum til Akraness, efli viðskipti fyrirtækjanna í bænum og verði lyftistöng fyrir atvinnulíf bæjarins.

16:35  Document Management System for Air Atlantic Icelandic. Hópurinn undirbjó og stýrði innleiðingu skjalastjórnunarkerfis hjá flugfélaginu Air Atlanta.

17:05  Markaðsáætlun fyrir námsbrautir í geisla- og lífeindafræði. Námsbrautir í geislafræði og lífeindafræði við læknadeild Háskóla Íslands hafa verið lítt sýnilegar og eru tiltölulega fámennar brautir. Ákveðið var að fara í markaðsátak til að kynna brautirnar fyrir væntanlegum nemendum og almenningi. Markmiðið er að fjölga nemendum í geislafræði og lífeindafræði og auka þekkingu almennings á fræðunum.

17:35  Hlé

17:50 Samtök kvenna með Endómetríósu. Stefnumótun og áætlanagerð fyrir samtökin. Félagasamtökin þjóna hagsmunum ákveðins markhóps, kvenna með sjúkdóminn endómetríósu. Helsta markmið samtakanna er að fræða almenning og heilbrigðisstéttir um sjúkdóminn og afmá þá bábilju að sársauki við blæðingar sé fullkomlega eðlilegur. Verkefnin fólu í sér undirbúning kynningafundar, útgáfu fræðslubæklings og gerð stefnumótunar til þriggja ára þar sem unnið er að uppbyggingu samtakanna og markvissri fræðslu, m.a. í samvinnu við heilbrigðisyfirvöld.

18:20  Esjan - heildræn heilsa. Áætlanagerð og hugmyndavinna í uppbyggingu heilsutengdrar ferðaþjónustu í Mosfellsbæ. Íslenskar heilsulausnir ehf. ætla að stofna og reka Heilsuþorp fyrir alla þá sem vilja leggja rækt við heilbrigða sál í hraustum líkama. Heilsuþorpið mun bjóða upp á nýja nálgun í heildrænni heilsumeðferð þar sem tekið verður á andlegri og líkamlegri heilsu og næringu í þeim tilgangi að hjálpa fólki að ná betri tökum á lífi sínu og heilsu. Einnig verður lögð mikil áhersla á virka eftirfylgni.

18:50   Innleiðing á CRM kerfi hjá MEDIS. Hópurinn undirbjó og stýrði innleiðingu á tengslastjórnunarkerfinu Microsoft CRM í tveim deildum Medis. Einnig gerði hann mismunagreiningu á verkefninu út frá Hugtakagrunninum PMBok (Project Management Body of Knowledge).

19:20 Fundarslit

19:30 LOK

Kynningin er opin og öllum heimill aðgangur á meðan húsrúm leyfir.